Gin Wide Open 2016

Kappflug um ósýnilega braut á himni.

18. – 25. júní fór fram alþjóðleg keppni í svifvængjaflugi í Saint-Jean Montclar, Frakklandi. Keppnin stóð yfir vikutímabil og felst í því að svifvængjaflugmenn svífa um himininn, frá rásmarki, á milli punkta sem þeir þurfa að finna með gps-tækjum og vera svo fyrstir í mark, sannkallað kappflug um himininn. 130 keppendur voru skráðir til leiks og komust færri að en vildu. Fimm keppendur voru þar fyrir íslands hönd og þar af þrír frá Svifvængjafélaginu Bólstra: Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Brynjar Óskarsson, Guðbjartur Rúnarsson, Pawel Sztuba og Tomasz Chrapek.

 

Um Gin Wide Open

Gin Wide Open er stærsta áhugamannakeppni heims í svifvængjaflugi, hún er fyrst og fremst hugsuð til gamans og til að kenna svifvængjaflugmönnum að keppa. Íslensku keppendurnir hafa verið tíðir gestir á þessu móti síðustu ár, enda er það góður undirbúningur fyrir næstu mót. Í þetta skiptið var Norðurlandmót svifvængja haldið á sama stað strax á eftir og svo er framundan Evrópumót í Makedóníu síðar í sumar.

 
GWO verðlaun

Bólstrafélagar í úrslitum í öllum flokkum

Eftir viku af flögri á milli skýjabotnanna, endalausri sól, mikið af vindi og smá rigningu voru úrslitin ljós: Ágústa Ýr Sveinsdóttir vann fyrstu verðlaun bæði í flokki kvenna og flokki B-vængja (Leisure class). Brynjar Óskarsson vann til þriðju verðlauna í flokki B-vængja og er þetta hans fyrsta keppni á svifvæng. Ágústa Ýr varð einnig í 3.sæti í flokki C-vængja (Sports class) og í 4. sæti í flokki keppnisvængja (Comp). Tomasz vann líka til verðlauna fyrir fjölmargar ljósmyndir sem hann tók í keppninni

Meðfylgjandi myndir tók Tomasz Chrapek