Ozone Ozium pod harness

Hér kemur örstutt umfjöllun um nýju púpuna (e. Pod Harness) sem ég keypti mér daginn. Þegar þetta er skrifað er ég búinn að fljúga henni í tæplega 8 klst. og miðast umfjöllunin hér við þá reynslu.

Púpan er af tegundinni Ozium frá Ozone og er í flokki mjög léttra púpna, aðeins um 2.6 kg (án varafallhlífar). Þrátt fyrir að vera létt er hún með 17 cm þykkum púða undir sætinu sem sem ver bakið og hrygginn fyrir áverkum ef maður lendir á rassinum. Púðinn nær hins vegar ekki upp allt bakið eins og til dæmis á Woody Valley GTO sætunum. Það er heldur engin viðar- eða koltrefjaplata í sjálfu sætinu, en þar sem púðinn er frekar stífur varð ég ekkert var við það.

Þar sem þetta er sérstaklega léttur búnaður þá er hann að sama skapi ekki eins slitsterkur eins og sá hefðbundni. Efnið, og þá sérstaklega í fremsta hlutanum sem nær yfir lappirnar, er þynnra en gengur og gerist og til þess að spara þyngd þá eru allar stillingar á púpunni (nema böndin yfir axlirnar) gerðar með því að stytta eða lengja í hnútum á böndum (sjá nánar mynd hér að neðan). Hægt er að skipta um frampart púpunnar ef þess þarf án mikilla vandræða.

Helstu kostir:

  • Mjög létt, aðeins 2.6 kg.
  • Pakkast vel.
  • Þægileg í flugi, liggur vel upp að líkamanum og auðvelt að stýra með þyngdarflutningi.
  • Auðvelt að pakka varafallhlíf inn í púpuna.
  • Auðvelt að stilla hana, bæði hallann, lengdina og bakstuðninginn.

Helstu ókostir:

  • Viðkvæmt ytra efni ef maður dettur óvart í flugtaki eða lendingu.
  • Ekki hægt að stilla breiddina yfir miðjuna (e chest strap). Er 46 cm á large púpunni.
  • Getur verið erfitt að komast í púpuna (sjá lausn neðst).
  • Mælaborðið (e. cocpit) sem fylgir með er frekar glatað, bæði lítið og stundum erfitt að sjá á tækin.

Stillingar

Það voru tvö mál sem ég komst að þegar ég var að stilla púpuna fyrir mig.

1) Til þess að stilla hana er nauðsynlegt að hengja hana upp í flughermi (e. Simulator). Mikilvægt er að breyta engum stillingum nema vera með allan þann búnað í púpunni sem maður er með á flugi (bakpokann, vatn, mat, pokann utan af vængnum, föt og þess háttar) og vera klæddur í fluggallann og í réttum skóm. Ástæðan er sú að jafnvægispunkturinn er frekar viðkvæmur þannig að ef að það er ekkert í bakpokanum á púpunni þá hallar hún nokkuð fram. Þetta hins vegar lagaðist strax hjá mér um leið og ég setti búnað í púpuna.

2) Til þess að það sé hægt að koma fótunum inn í púpuna án þess að sleppa bremsunum fann ég einfalda lausn á Paragliding Forum sem felst í því að festa teygju fremst í púpuna, setja lykkju á hana og og smeygja svo henni utan um annan fótinn áður en maður hleypur af stað. Ég prófaði þetta og virkaði þetta án vandræða og truflaði hvorki flugtak né lendingu. Eftir flugtak réttir maður svo bara úr fætinum sem er með teygjunni á og þá er hægt að koma hinum fætinum inn. Sjá myndir hér að neðan af teygjunni.

Teygja til þess að smeygja utan um annan fótinn.
Teygja til þess að smeygja utan um annan fótinn, um það bil 35 cm. löng

 

Hér sést hvernig teygjan hangir neðan úr púpunni.
Hér sést hvernig teygjan hangir neðan úr púpunni.

 

Þarna sjást böndin (rauð) sem eru lengd/stytt með því að losa hnútinn og færa til.
Þarna sjást böndin (rauð) sem eru lengd/stytt með því að losa hnútinn og færa til.

Ertu með einhverjar spurningar? Sendu okkur línu á bolstri@bolstri.is
Brynjar.