SIV í Tyrklandi

Á dögunum fór tveir félagsmenn Bólstra, Brynjar og Gussi, á SIV námskeið á vegum Passion Paragliding í Ölüdeniz í Tyrklandi. SIV er skammstöfun sem stendur fyrir frönsku setninguna Simulation Êd’Incident en Vol, eða Simulated Incidence in Flight á ensku. Í stuttu máli snýst svona námskeið um að búa til ýmsar mis hættulegar aðstæður sem geta komið upp í svifvængjaflugi og læra að bregðast rétt við þeim.

Brynjar skrifar hér um ferðina.

Tyrkaland
Ölüdeniz er algjör paradís fyrir þá sem vilja leika sér á svifvængnum sínum. Tekið er að stað af fjallinu Babadağ (hæsti flugtaksstaðurinn þar er í um það bil 1900 metra hæð yfir sjávarmáli) og eftir innan við 10 mínútna svif er maður kominn yfir heitan sjóinn sem býður upp á nokkuð öruggt lendingarsvæði ef eitthvað fer úrskeiðis. Þessi mikla hæð sér til þess að nægur tími gefst til þess að gera fullt af æfingum áður en lent er í heitum sandinum á ströndinni. Í lok dags er fjöldinn allur af veitingastöðum sem bjóða upp á fínan mat og kaldan bjór til að ná sér niður eftir daginn. Allir tala ensku, hraðbankar á hverju horni og „This price is only for you my friend” tilboð hvert sem farið er. Fyrir þá sem eru ekki að fljúga er strönd með hvítum sandi og endalaus sól til að work-a tanið.

SIV Námskeiðið

Passion Paragliding hópurinn sem var í Tyrklandi samanstendur af 5 manns:

  • Toby Colombé, sem sér um sjálfa SIV kennsluna.
  • Mike Agnew, sem sér um að halda í höndina á okkur upp á flugtaksstað og er í beinu sambandi við Toby þaðan. Hann kann líka að pakka fallhlífum!
  • Mourad Iouiri, frábær strákur frá Morocco, sem tekur myndband af öllum æfingunum sem maður gerir.
  • Óþekkti skipstjórinn, strákur sem siglir bátnum sem Toby er á.
  • Óþekkti rútubílstjórinn, hann sá um að koma okkur upp á flugtaksstað.

Uppbyggingin á námskeiðin eru þannig að hver þáttakandi flýgur samtals 8 SIV flug. Fyrir hvert einasta flug er farið yfir með öllum hópnum hvað stendur til að gera. Toby leggur línurnar fyrir það sem hann vill að við gerum næst, útskýrir hverja einustu æfingu ítarlega, hvað eigi að varast og hvað geti farið úrskeiðis ef allt fer á versta veg. Ef þátttakandi er sáttur við það sem Toby stingur uppá fara þær æfingar á hans lista. Það er hins vegar enginn þvingaður í eitt né neitt og ef maður vill ekki gera einhverja æfingu, eða vill endurtaka fyrri æfingar, þá er það alltaf sjálfsagt. Það er mikil áhersla lögð á að svona námskeið sé ekki til þess að hræða fólk, heldur til að gera okkur að öruggari og betri flugmönnum. Áður en farið er í loftið er því hver einasti þátttakandi með sinn eigin lista af æfingum.

Á flugtaksstað fara þáttakendur í loftið með um það bil 10 mín millibili þar sem aðeins einn í einu gerir SIV æfingar á hverju tíma. Þetta þýðir að maður getur þurft að bíða nokkuð lengi eftir að komast að stað. Þegar farið er í loftið er stímt beint út á sjó og beðið eftir að Toby hafi samband við mann í talstöðina og láti vita að maður sé næstur. Síðan hefjast æfingarnar. Toby fer í gegnum alla æfinguna í talstöðina og svo gerir maður allt og hann hjálpar manni allan tímann. Mikilvægast af öllu er einfaldlega að hlusta og gera það sem hann segir. Toby passar líka upp á staðsetninguna á manni þannig að ef maður þarf að kasta varafallhlíf, þá lendi maður í sjónum, en ekki uppi á húsþaki.

Í raun er hægt að biðja um allar hugsanlegar æfingar, allt eftir getu. Þær æfingar sem ég gerði voru eftirfarandi:

  • Big ears á fullum speed bar
  • Big big ears á fullum speed bar (Gussi prófaði þetta, ég lét þetta eiga sig)
  • Asymmetric collaps
  • Asymmetric collaps á hálfum speed bar
  • Asymmetric collaps á fullum speed bar
  • Halda asymmetric collaps og stýra vængnum
  • Full frontal collaps
  • Full frontal collaps á hálfum speed bar
  • Full frontal collaps á fullum speed bar
  • Pitch control æfingar
  • Dynamic turns
  • Wingovers
  • Spírall með fast exit
  • Swiss spírall (Gussi prófaði þetta)
  • Autorotation (veit ekki hvort það er til íslenskt heiti yfir þessa æfingu)
  • Finna spin punktinn á vængnum. (Point of spin)
  • Full stall

Einhverjir prófuðu svo SAT og einhverjar fleiri æfingar, en þar sem þetta var mitt fyrsta SIV dugði þetta vel.

Í lok hvers flugs (suma daga eru jafnvel flogin 3 flug) er farið stuttlega yfir hvernig gekk og svo byrjar hringurinn aftur og Toby fer yfir næstu skref. Í lok dags er svo horft á „best of” af þeim myndböndum sem voru tekin yfir daginn. Málin eru rædd, æfingar skoðaðar og pælt í hvað hefði mátt gera betur og hvað var vel gert.

Öryggisatriði
Þar sem verið er að gera æfingar sem geta endað illa er gríðarlega mikivægt að öll öryggisatriði séu 100% í lagi. Toby og félagar pössuðu rosalega vel upp á þetta. Það sem þeir hafa mestar áhyggjur af eru ekki sjálfur SIV æfingarnar heldur flugtakið og lendingin. Reynslan hefur kennt þeim að þar verð slysin.

  • Farið var yfir uppsetningu á harnessum og hver einsta fallhlíf var tekin út og farið yfir allar festingar. Í mínu tilfelli bað ég um endurpökkun líka, en það er venjulega ekki gert.
  • Allir eru í björgunarvesti sem, þegar fullblásið, getur haldið höfðinu á flugmanni sem er meðvitundarlaus í stóru loftpúðaharnessi fyrir ofan sjávarmál.
  • Allir þátttakendur verða að vera með talstöð með heyrnartóli til þess að vindgnauð nái aldrei að yfirgnæfa Toby í talstöðinni.
  • Toby er alltaf á bát þegar æfingarnar eru gerðar, þannig að ef einhver fer í sjóinn er hann ekki lengur en 30 sek á staðinn.

Og hvernig var?
Þetta var algjörlega frábær reynsla. Ég var að fljúga nýjum væng, Ozone Swift 4, ML, sem er high-end B vængur. Eftir á að hyggja hefði ég gjarnan viljað taka mitt fyrsta SIV á aðeins léttari væng (low-end B). Í samanburði við A eða low-end B þá var hann á köflum ansi frískur. Ég var einnig í púpu og hefur það nokkuð mikil áhrif til þess verra þegar kemur að því að stjórna vængnum t.d. eftir stórt samfall.

Það sem kom mér á óvart:

Asymmetric collaps á fullum speedbar var miklu kraftmeira en mig hefði órað fyrir. Þegar 80-90% af vængnum hverfa, þá skýst fljúgandi hlutinn af miklum hraða fram og auðvelt að lenda í twisti, sér í lagi í púpu sæti.
Auto roation var skrýtin tilfinning. Hún felst í því að maður gerir collaps öðru megin og hallar sér svo af öllum þunga inn í þá hlið, eftir 1-2 hringi byrjar svokölluð auto-rotation þar sem maður þeytist einhvern vegin skringilega og vindurinn kemur á hlið í andlitið.
Það sem kom þægilegast á óvart var hvað full stall var ekki eins hræðilegt og ég bjóst við. Það var vissulega erfitt að stalla vængnum (stall punkturinn neðarlega og mjög þungt að halda vængnum í stolli) en reynslan sjálf er ekki vond. Vængurinn minn hefur hins vegar tilhneigingu til þess að enda með cravat eftir svona leikfimi þannig að ég fékk góða reynslu í að leysa úr þeim.

Ég myndi mæla með því við ALLA flugmenn að fara á þetta SIV námskeið. Ég hef ekki lært svona mikið á einni viku um vænginn minn, og mín eigin viðbrögð, nokkurn tíma áður. Í raun snýst þetta held ég mest um eigin viðbrögð, þau eru oft meira spennandi en sjálfur vængurinn 🙂 Toby er líka mjög jákvæður, duglegur að hrósa þegar vel er gert og lítur á mistök sem tækifæri til að gera betur.

Brynjar.